1.6.2007 | 22:59
Það verður náttúrulega að leika í stöðunni ..
.. ekki gengur að hugsa þar til menn falla á tíma. "Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða." (úr sáttmálanum)
Ef ríkisstjórnin ætlar bara að halda að sér höndum og falla á tíma þá er hún aum.
Mín skoðun er að það eigi að hætta að tala um kvóta/veiðiheimildir og fara að tala um fjöregg byggðanna. Hugsanlega getur verið rétt að kaup og sala á fjöreggi byggðanna skapi aukna hagkvæmni hjá einstaka útgerðaaðilum, en ef ríkisstjórnin er að spá í þjóðhagslega hagkvæmni þá verður hún að hugsa eilítið lengra og líta á heildarmyndina. Það er gífurleg fjárfesting fólgin í hverri sjávarbyggð svo ekki sé spáð í menningar-, sögulegum og tilfinningalegum verðmætum. Ég gæti fallist á að einhver gæti keypt fjöregg einhvers byggðalags, en þá verður að gera þá kröfu til hans að hann stundi útgerð og vinnslu frá viðkomandi plássi. Ef ekki þá verður að gera eðlilegar kröfur á hann eins og t.d. að gera yfirtökutilboð í húseignir, gatnakerfi, hafnir og aðra innviði byggðalagsins sem hann ætlar að rústa.
Síðan eiga bæjarstjórnirnar að hætta að lýsa yfir vonbrigðum með nefndarálit eða aðgerðir/aðgerðaleysi stjórnvalda. Það er orðið dálítið þreytt og skilar engu. Í stað þess eiga að koma kröfur. Við krefjumst þess að .... ef ekki verður gengið að þeim er eðlilegt að fara að hugsa næstu skref.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.